5 góð ráð sem hjálpa þér við hugleiðsluna

Hugleiðsla er án efa eitt af heitustu heilsuráðunum í dag enda hefur ágæti hugleiðslu margsannað sig í gegnum aldanna rás. Að auki hafa nýlegar rannsóknir allflestar sýnt fram á fjölda heilsufarslegra ávinninga af hugleiðslu, svo í raun er það hverjum manni nauðsynlegt að bæta hugleiðslu inn í sína daglegu rútínu.

Margir kvarta þó sáran yfir því að eiga erfitt með að finna tíma í sínu daglega lífi fyrir hugleiðslu og aðrir eiga erfitt með að koma huga sínum á réttan stað svo hægt sé að iðka hugleiðslu með fullri einbeitingu. Ef þú ert ein/n af þessum þá gætu eftirfarandi fimm ráð komið til hjálpar.

Farðu á friðsælan stað í huganum
Ef þú átt erfitt með að einbeita þér og hugurinn er fullur af hugsunum er ágætt að sjá fyrir sér friðsælan stað í huganum, t.d. grænt gras, fuglasöng og fljótandi vatnsstraum. Í raun friðsælan stað út í náttúrunni sem róar hugann

Komdu þér þægilega fyrir
Þegar þú hugsar um hugleiðslu gætir þú hugsað um hina klassísku stellingu, fætur krosslagðar, þráðbeint bak og hendur út til hliðana. Það er þó ekki fyrir alla að halda út í langan tíma í slíkri stellingu og þess vegna ætti hver og einn að finna sér þægilega stöðu meðan á hugleiðslunni stendur. Sem dæmi má finna þægilegan stól eða kodda en við mælum þó með því að þú sitjir á meðan á hugleiðslunni stendur, í stað þess að liggja flöt/flatur.

Veldu tíma sem hentar
Til þess að koma sér upp góðri rútínu er mikilvægt að finna hentugan tíma til hugleiðslu iðkunnar. Þarfir hvers og eins eru mismunandi og enginn einn tími sem hentar öllum en þó er mælt með því að þú sért ekki þreytt/ur meðan á hugleiðslunni stendur þar sem hugleiðsla krefst þess af þér að þú sért vakandi.

Gerðu hugleiðslu að vana
Ef þú átt erfitt með að setja hugleiðslu framarlega í forgangsröðina áttu það á hættu að hugleiðslan gleymist í amstri hversdagsins. Reyndu að finna út ástæður þess að þú getur ekki hugleitt og reyndu að koma í veg fyrir að slíkt gerist, þar til hugleiðslan verður að vana, líkt og að borða morgunverð eða fara á æfingu. Minntu sjálfan þig einnig á hversu gott það er að hugleiða og hversu vel þér leið í kjölfarið.

Hugleiddu að morgni dags
Eins og áður segir er mikilvægt að hver og einn finni hentugan tíma til hugleiðslu en margir telja þó að best sé að hugleiða í morgunsárið, þegar einbeitingin er góð og viðkomandi óþreyttur eftir góðan svefn. Þannig má líka nýta hluta hugleiðslunnar til þess að skipuleggja daginn og tæma hugann fyrir komandi verkefni.

2018-02-06T18:17:36+00:00